Hvítur hrossagaukur!

Það er fremur fágætt að sjá albínóa á meðal fugla. Albínóar eru einstaklingar sem ekki eru með litarefni. Algengara er að sjá fugla sem eru albínóar að hluta og eru þá ljósir eða með ljósa bletti, en ekki skjannahvítir.

Lífslíkur albínóa eru minni en annarra fugla meðal annars vegna þess að þeir stinga í stúf í náttúrunni og geta ekki auðveldlega falið sig fyrir óvinum með hjálp felulitanna sem eru þeim náttúrulegir.

Hvítur hrossagaukur (A.Þ.J.)

Anna Þóra Jónsdóttir rak augun í hvítan hrossagauk á bænum Vatnsleysu í Skagafirði og náði af honum þessari mynd til sönnunar! Hún sagði frá að hún hefði séð hann úti í skurði og hljóðin í honum væru alveg eins og hverjum öðrum hrossagauk.

Hér má lesa um hrossagauk á Fuglavefnum. Þar sjáið þið myndir af honum í sínum hefðbundnu litum.

Berggangar myndast á Reykjanesskaga

Hægt er að skoða bergganga víða um land, til dæmis í Skagafirði! Hér má lesa um þá.

Nú er mikið rætt um jarðskjálfta á Reykjanesskaga og einnig berggang sem þar er að myndast. Áhugavert er að velta fyrir sér hvort hann eigi einhvern tíma eftir að sjást á yfirborði jarðar og þá hvenær. Hvað haldið þið?

Eftirfarandi skýringamyndir eru af vef RÚV:

Mikið hlýtur að vera gaman að vera jarðfræðingur!

Við hreiður

Núna er tíminn sem þið rekist kannski á hreiður. Það er alltaf gaman, ekki síst þegar tækifæri er til að fylgjast með því um tíma og sjá þegar ungarnir koma í heiminn og taka svo að braggast. Sumir ungar vappa fljótlega úr hreiðrinu eftir að þeir skríða úr eggi, t.d. vaðfuglar, en hjá öðrum tegundum, t.d. spörfuglum er vist unganna mun lengri í hreiðrinu.

Hér getið þið fylgst með krumma og svartþresti á hreiðri:

https://www.byko.is/krummi

https://www.ruv.is/frett/2020/05/03/svartthrastahreidur-i-beinni-utsendingu

Farið inn á fuglavefinn og skoðið hreiður ólíkra fugla. Hvaða fuglar eiga vönduðustu hreiðrin?

Segið frá reynslu ykkar af því að fylgjast með varpi og uppeldi unga.

Farfuglar

Þann 15. mars bárust fréttir af því að lóan væri komin. Hér sjáið þið hvar lóan heldur sig á veturna:

Vetrarstöðvar heiðlóu (kort af Fuglavefnum, Menntamálastofnun).

Ef þið ímyndið ykkur að þið sláist í för með lóunni og íhugið hvar þið komið til landsins þurfið þið líklega ekki að hugsa lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að Suðausturland sé líklegur staður. Lóan sem fréttist af þann 15. mars var einmitt þar, nálægt Höfn í Hornafirði.

Farfuglar frá Evrópu sjást gjarnan fyrst á þessum slóðum en dreifa sér síðan um landið. Oft hvíla þeir sig og byggja sig upp í fjörunni við komuna til Íslands. Hvenær ætli lóan komi hingað í Skagafjörð?

Í apríl kemur fjöldi farfugla til landsins. Oft eru þeir kallaðir vorboðar. Hér er skemmtilegt ljóð um þá:

VORBOÐAR

Hópur fugla flýgur lágt yfir sjó
á leið til landsins, vængjaslátturinn
dregur vorið á eftir sér sunnan úr álfu.

Óþreyjufullt flugið styttist uns
eygja þeir kunnugleg fjöll í norðri.

Örþreyttir rjúfa fuglarnir lofthelgi Íslands.

Brátt leggja þeir græn teppi
yfir öll tún og lýsa upp nóttina
með sólbjörtum söngvum.

Ari Jóhannesson
(birt á facebook 21. mars 2020 og í aprílhefti Læknablaðsins 2020)

Skoðið vel myndirnar sem Ari dregur upp í ljóði sínu um vorboðana.

Hjálpist að við að finna leiðir til að fylgjast með og skrá komu farfuglanna í Skagafirði. Ræðið aðferðir ykkar við kennarann.

Helsingjar eru mjög áberandi í Skagafirði á vorin. Þeir eru umferðarfarfuglar og staldra við á Íslandi á leið sinni til varpstöðvanna á Grænlandi. Sérstakur kafli er um helsingja hér á vefnum >> LESA.

Tré í fannfergi

Þegar mikill snjór sest á trén svigna greinarnar og sumar brotna. Það er misjafnt eftir tegundum trjáa hversu mikið þær þola. Við sjáum á þessum myndum sem nýlega voru teknar í Hólaskógi að mörg tré hafa skemmst, enda hefur mikið snjóað í vetur, óvenjulega mikið!

Sjáið hvernig barrtrén hafa kubbast. (EBÖ)
Úff! (EBÖ)
Birki sem hefur bognað. (EBÖ)

Á þessari síðustu mynd er birki sem hefur svignað – en ekki brotnað. Takið eftir að börkurinn hefur líka látið ásjá í veðurhamnum. Birki er íslensk tegund sem hefur aðlagast aðstæðunum hérlendis á löngum tíma.

Hafið þið séð skemmdir á trjám eftir óveður og snjóþyngsli?
Hvernig litu þær út? 

Brambolt í Ketubjörgum

Enginn varð vitni að því þegar brotnaði úr Ketubjörgum um helgina en líklegt er talið að það hafi gerst um kl. 11 á laugardaginn. Þess sáust nefnilega merki á jarðskjálftamæli á bænum Hrauni á Skaga.

Heljarins bjarg í Ketubjörgum klofnaði endanlega frá og hafnaði í fjörunni. Undanfarin ár hefur mátt fylgjast með sífellt stækkandi sprungu á þessum stað.

Myndirnar sýna vel breytinguna frá bjargbrúninni.
Efri myndin var tekin fyrir rúmu ári. (PF – Feykir).

Það sem hrundi er álitið vera þúsundir tonna.

Bjargið sem hrundi (SBS – Morgunblaðið).
Rauða línan bendir á hvar brotnaði að þessu sinni. Myndin var tekin 2017 (SH).

Eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var sumarið 2017 er greinilegt að stöðugt er að brotna úr berginu.

Fleiri fréttir um hrunið sem átti sér stað 1. nóvember 2019 má finna hjá Ríkisútvarpinu, í Feyki og í Morgunblaðinu og víðar. Já, þetta er merkileg frétt.